Reykjavík Record Shop kynnir með stolti plötuna mowerpic með hinni mögnuðu hljómsveit symfaux (borið fram simfó).
symfaux er sérvitringagítarrokksveit sem samanstendur af Ægi Sindra Bjarnasyni (trommur), Vigfúsi Þór Eiríkssyni (gítar) og Sturla Sigurðarsyni (gítar). Þeir hafa allir leikið í fjölda ólíkra hljómsveita í sitthvoru lagi en komu saman haustið 2024, sameinaðir í áhuga sínum á öfgakenndri dýnamík og óhefðbundnum gítarstillingum og lagastrúktúrum. Þeir léku sína fyrstu tónleika á off-venue í 12 Tónum á Iceland Airwaves 2024 og þann sama dag gáfu þeir út sína fyrstu plötu, carmonk (sem var tekin upp nokkrum dögum fyrr). Þeir hafa verið afar iðnir við kolann síðan og leikið á töluverðum fjölda tónleika og hátíða.
Önnur plata þeirra, mowerpic, var tekin upp í Sundlauginni miðvikudaginn 23. apríl 2025 og kemur út á glæsilegri 180g vínylplötu á vegum Reykjavík Record Shop (og á Bandcamp) föstudaginn 7. nóvember 2025. Platan hefur að geyma níu lög, fimmtíu mínútur og er full af einstakri ástríðu fyrir óhemju, óhljóðum, óreiðu, ómstríðu, ómþýðu, angurværð, mildi, spennu, losun. Í stuttu máli gott rokk.
Þess má geta að mowerpic er fyrsta 180 gramma pressa Reykjavík Record Shop!







